Upptökur – lengdin

Mitt sérlega áhugamál er upptökur og kem ég þeim að út um allt. Ég er alltaf að tuða yfir of löngum myndböndum og eflaust er fullt af fólki búið að fá alveg nóg af þessu hjá mér. En þetta skiptir mjög miklu máli að hugsa þetta aðeins því það tekur smá tíma að búa til gott kennslumyndband og því er eins gott að einhver vilji horfa á það hjá manni. Þannig er talað um að 10 mínútna mynd er ca. klukkutíma í vinnslu, eða frá upphafi og þar til það er komið inn á YouTube (ef það er sett þar inn).

Erlendar kannanir hafa sýnt að eðal lengd á kennslumyndbandi er 6 mínútur. MOOC skólar eins og EdX leggja mikla áherslu á að kennarar þeirra haldi sig innan þessa tímaramma og hafi frekar fleiri myndbönd heldur en eitt langt. Brjóti þau sem sagt niður.

Þetta er hinsvegar ekki svona einfalt. Sum myndbönd eru einfaldlega lengri og verða að vera lengri. Kannanir hafa sýnt að ef áhorfandi telur sig vera að fá eitthvað út úr myndbandinu þá horfir hann áfram.

Fyrirlestrar eru oft lengri en þau myndbönd sem taka á afmörkuðu efni en þau mega samt ekki fara langt fram úr tíma. TedX fyrirlestrar t.d. mega ekki fara yfir 18 mínútur, ef þau eru lengri þá eru þau ekki birt. Skipuleggjendur þar segja að 18 mínútur sé nógu langur tími fyrir fyrirlesara til þess að lýsa ákveðinni hugmynd og um leið nógu stuttur til að áhorfandi eigi að geta tekið inn og skilið það mikilvægasta úr fyrirlestrinum.

Fjarkennarinn

Margir kennarar eru í þeirri stöðu í dag að vera allt í einu orðnir fjarkennarar. Þetta er vonandi tímabundið ástand en þó er ýmislegt hægt að gera til að auðvelda sér ástandið. Það eru fimm þættir sem fjarkennari þarf að hafa í huga og ef þeir eru svona nokkurn veginn í lagi þá getur það auðveldað ýmislegt. Þessir fimm þættir eru: Sýnileiki, skipulagning, umhyggja, greiningar og það að vera fyrirmynd. Þetta er sett upp á eftirfarandi mynd:

ZOOM breakout rooms

Er búin að vera skoða möguleikana hjá ZOOM í morgun. Fékk fyrirspurn frá kennara í allt öðru landi í allt öðrum skóla (var þetta ekki í einhverjum texta?) og við sátum og veltum fyrir okkur margvíslegum möguleikum á „breakout rooms“ og upptökum. Það er nú skemmtilegra að henda svona á milli heldur en rolast alveg einn, það verður að viðurkennast 😉

Allt komið á fullt

Ég hef ekki sett neitt inn á síðuna síðan í júní. Ég hef aðallega verið að lesa og horfa á myndbönd um fjarkennslu. Nú eru allir í sömu sporum út um allan heim og það þýðir að það er miklu meira af góðu og aðgengilegu efni fáanlegt. Ég hef dottið ofan í nokkra gúrúa og mun setja inn tengla og efni frá þeim eftir því sem það er tilbúið. Þessa dagana er ég hins vegar nær eingöngu að horfa á INNU og hvernig hægt er að nota hana sem best. Ég vona að ég komi nokkrum myndböndum því tengdu inn um helgina.

Tæknin er ekki kennslufræðin

Ég stal þessum titli úr grein eftir Sean Michael Morris sjá hér. Þetta eru hugleiðingar um tæknina og kennsluna þegar allir skólar þurftu að skella sér „online“ án nokkurs fyrirvara.

Málið er eins og hann segir að við megum ekki rugla saman tækninni sem við höfum og kennslufræðinni, þ.e.a.s. hvernig við náum til nemenda. Það er ekki bara að henda efninu á skjáinn og kenna í gegnum hann, heldur hvernig ætlum við að ná til nemenda? Eða eins og hann segir í greininni: teach through the screen, not to the screen. Við getum dregið upp alla heimsins tækni og tæknibrellur en þegar upp er staðið er það alltaf hvernig næ ég sambandi við nemandann?

Hvet ykkur til að lesa greinina, hún vekur mann til umhugsunar. Við höfum núna fullt af tækifærum til að bæta inn rafrænum kennsluháttum en verðum að passa okkur að gleyma ekki mannlega þættinum.

Uppfærð leiðbeiningasíðan

í dag ætla ég að setja uppfærða leiðbeiningasíðu í loftið sem tekur við af hinni. Það er komið meira efni og uppsetningin aðeins betri að ég held. Sumir flokkarnir eru enn tómir en það kemur efni í þá um leið og það er tilbúið.

https://kennsluradgjof.com/leidbeiningar-um-rafraena-starfshaetti/

Ég er búin að vera að skoða kennslumyndbönd, aðallega hjá Russell Stannard og fylgi í rauninni í hans spor með uppsetningu og annað. Auðvitað geta allir farið inn á YouTube rásina hans og skoðað efnið sem hann er með og hvet ég fólk til að gera það. Margir kennarar hafa hinsvegar sagt mér að þeir kjósi frekar efni á íslensku þannig að það er það sem ég er að útbúa núna. Tekur smá tíma en allt gengur þetta.

Júní

Það er kominn nýr mánuður ekki seinna vænna en að byrja að undirbúa haustönnina. Það er heilmikið sem á eftir að gera. Vinnan fram að þessu hefur aðallega verið að skella inn nýjum leiðbeiningum og vera til staðar eftir því sem þarf. Nú er hinsvegar hægt að byrja að skipuleggja betur og sjá hvað er mest áríðandi fyrir kennara.

Ég ætla að taka upp ferlið í INNU þegar sett er upp einkunnaregla fyrir námskeið og í framhaldi af því hvernig einkunnareglan er tengd við einstaka verkefnaþætti. Það gerir það að verkum að skráning einkunna og utanumhald verður meira rafræn og minni vinna vonandi sem fer í þá þætti.

Ég er búin að vera að horfa á ógrynni af myndböndum um rafræna kennslu undanfarnar vikur. Myndbönd sem fjalla að miklu leiti um hvernig hægt er að kenna rafrænt og bæta við efni inn í rauntímakennslu.

Held að það sé ljóst að enginn vilji fara þá leið aftur að hafa alla kennslu rafræna en hinsvegar gæti það verið ágætis viðbót þar sem það á við. Það hentar hvorki öllum kennurum eða nemendum að vera í fjarkennslu/námi. Það er hinsvegar mjög mikið til af efni sem hægt er að bæta inn í kennslu til þess að hafa kennsluhætti fjölbreyttari. Aðalmálið sem þarf að hugsa um er að þetta þarf að vera efni sem er gott námsefni og það má alveg vera skemmtilegt. Það er auðveldara að læra ef efnið er skemmtilega upp sett og er skemmtilegt þannig að það höfði til nemandans. Auðvitað er það þannig að það höfðar ekki það sama til allra en þá er málið að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti og þannig ná til sem flestra.

Allt að gerast

Nú er langt liðið á maí. Byrjað að lyfta ýmsum höftum og hópar sem mega koma saman að stækka. Þó er 2 metra reglan enn við lýði og ekki hægt að fljúga til útlanda. Enda öll lönd í kringum okkur lokuð líka þannig að þó það væri flogið væri hvergi hægt að lenda. Bömmer.

Skólarnir eru að klára. Flestir að ljúka á einhvern rafrænan hátt nema þar sem verður að taka próf í mannheimum! Byrjað er að undirbúa útskriftir og verða þær með öðru sniði en venjulega þar sem hópar mega ekki vera nema X stórir og 2 metrar á milli manna. Augljóslega gerir það allt aðeins erfiðara.

Hér á síðunni er verið að skrifa kafla um hvernig eigi að setja upp námsefni og haga námsfyrirkomulagi í rafrænni kennslu. Hvort sem um er að ræða kennslu alveg á netinu eða hluta til. Kennarar sem vinna ekki rafrænt en vilja bæta rafrænu efni í sína kennslu ættu einnig að geta fundið eitthvað til hjálpar við sinn undirbúning.

Vika 304 (eða eitthvað, ég er búin að missa töluna)

Þá er að koma að seinni hluta Covid lokunar, eða alla vega þá erum við farin að sjá til sólar. Ekki að skólarnir verða galopnaðir upp á gátt og við flykkjumst öll inn. Nei en alla vega þannig að fólk getur tekið inn afmarkaða hópa ef þörf er á og unnið með það.

Zoom fundirnir standa enn fyrir sínu, maður þarf bara að passa að líta í spegil áður en maður sest niður og kveikir á myndavélinni, annars er voðinn vís.

Ég finn að flestir sem ég tala við eru að ganga í gegnum svipaða hluti. Orkan sem var í gangi á fyrstu vikunum er alveg að verða búin og fólk er farið að vera lengur að klára einföldustu verkefni. Verkefni sem var skotist í og klárað situr nú í tölvunni og bíður og loksins þegar hafist er handa er erfitt að halda athyglinni lengi í senn.

Facebook kallar stöðugt með einhverjum aulaleikjum sem ótrúlegasta fólk er farið að taka þátt í. Held að reikningsþrautirnar séu búnar í bili en í staðinn er kominn leikur með hvert ferðu í frí (eins og einhver sé að fara í frí (hlegið holum hlátri)). Ég birti bara myndir af hundinum eins og enginn sé morgundagurinn enda mun meira að gera hjá honum heldur en mér.

„Munum við skoppa inn eins og kálfar eða feta okkur áfram eins við séum hálffeimin við hvort annað?“

Svo er spurningin hvað gerist þegar við megum fara að vinna á vinnustað aftur (ég vil ekki alveg segja að heimili mitt geti kallast vinnustaður þó ég sé öll að vilja gerð). Munum við skoppa inn eins og kálfar eða feta okkur áfram eins við séum hálffeimin við hvort annað? Ég stend mig að því að ef fólk stendur of nálægt mér er ég farin að stíga eitt skref aftur á bak, spurning hvort það verði viðvarandi?

„Og hvernig verður með matartímana? „

Og hvernig verður með matartímana? Ég hef miklar áhyggjur af þeim. Á þessum vinnustað þar sem ég er núna (heimilið) þá er bein tenging við ísskápinn 24/7. Það þýðir að ég sit við tölvuna í ca 5 mín og sprett síðan á fætur eins og ég hafi ekki fengið að borða í nokkra daga og ryðst í ísskápinn. Það hefur ekkert bæst við hann síðan ég fór síðast fyrir 5 mín. Þetta endurtekur sig allan daginn. Sé okkur í anda í skólanum. Erfitt að viðhalda 2m reglunni þegar örvæntingafullir kennarar reyna að finna ísskápinn! Þetta verður erfitt.

„Við hvæsum stundum á hvor aðra þegar við göngum framhjá á göngunum (örlítilli stofunni).“

Ég elska barnið mitt en 23 tímar alla daga er farið að taka sinn toll. Við hvæsum stundum á hvor aðra þegar við göngum framhjá á göngunum (örlítilli stofunni). Síðan er það slagurinn um sjónvarpið. Hvort á PlayStation eða Netflix að ráða? Ég styð hið síðara en hún hið fyrra. Við horfum því manndrápsaugum á hvor aðra þar til við getum farið að borða aftur (eftir 5 mín).

„Nei þetta eru sko ekki hrukkur heldur inngróið súkkulaði!“

Og maturinn, jesúsamía! Hún vill borða hollt, smoothies og einhverja ávexti og svoleiðis. Ég borða allt, allt og aðeins meira ef hægt er. Hún fer sem betur fer ekki í ísskápinn (nema til að athuga með ávexti). Ég býð henni stundum upp á súkkulaðimola (einn) og bið í huganum að hún segi nei og hingað til hefur hún gert það. Þannig að ég sit ein í sófanum og gadda í mig Síríus súkkulaði þannig að taumarnir liggja meðfram munnvikjunum (hélduð þið að þetta væru hrukkur?). Nei þetta eru sko ekki hrukkur heldur inngróið súkkulaði!

Þrjár vikur

Þá eru liðnar þrjár vikur og búið að lengja um fjórar vikur í viðbót, eða til 4. maí. Spurning með að fara að setja niður eitthvað kerfi yfir daginn. Eina kerfið sem hefur verið í gangi er að vinna og fara út með hundinn. Passa tvo metrana. Muna geðheilsuna. Nú held ég að það sé komið að því að snúa vörn í sókn og ákveða vinnutíma og gera svo eitthvað skemmtilegt hinn hluta dagsins.

Ég er með nokkur verkefni sem þarf að klára og nemendur sem þarf að sinna (þó ég hafi sagt þeim að þau séu núna í páskafríi). Spurning að kaupa svo málningu og mála? Er ekki alveg með nennuna fyrir því en þetta er samt upplagður tími (og svo er sagt að það sé gaman að horfa á málningu þorna ef maður hefur ekkert annað).

Ég hef ekki nennt að fara út í alla þessa lista yfir fyrrverandi störf og hvítar og gular myndir og guð veit hvað. Það var það sem var ráðandi í þessari viku. Tók við af brjálæðinu með að fara í peysu standandi á höndum og allt það. Ákvað að hvorugt væri fyrir mig.

„Sá hjá einni að skemmtilegt væri að vera með lista yfir 10 manns sem maður hefur sofið hjá og einn sem maður hefur ekki sofið hjá og giskiði svo“.

Gamli pönkarinn spratt upp og ég fór að setja saman lista í huganum en hugsaði svo nahhh eða kannski ekki.

Úti er allt á kafi í snjó enda skipti ég yfir á sumardekk fyrir helgina og keypti hlaupaskó fyrir krakkann. Hún hefur örugglega lagst á bæn til máttarvaldanna að veðrið yrði klikk því hún var nú ekki ánægð með þessa hugmynd. Ég er búin að sjá okkur mæðgurnar hlaupa fjaðurmögnuðum skrefum yfir holt og hæðir með bros á vör og roða í kinnum (raunveruleikinn er auðvitað að krakkinn væri þannig og ég hjassaðist á eftir með örmögnun í augunum, eldrauð í framan með tunguna lafandi).

Súkkulaðiátið sem ég nefndi í síðustu viku er enn til staðar og uppsöfnun á páskaeggjum í gangi. Við erum að hugsa um að byrja fyrir páska á því stærsta og borða okkur svo niður til páskadags. Hljómar eins og tónlist í mínum eyrum. En ég kaupi bara íslenskt nammi (súkkulaði) og næ þannig alveg að selja mér hugmyndina um aukið súkkulaðiát.

„Varðandi drykkjuskap þá þarf ég að fara að fara að hlusta á Ölmu, ekki bara Víði“.

Nú er ég farin að drekka einn bjór um hverja helgi og veit ekki hvert þetta stefnir. Þarf örugglega að fara í einhverja súkkulaði- og alkahól afvötnun eftir að Covid kveður. En plúsinn væri að þar yrðu örugglega margir af vinunum líka þannig að við næðum aftur upp nándinni sem við erum að tapa niður.

Áfram við og tveggja metra reglan!