Kannanir í Google forms

Það er skemmtilegt að fá nemendur til að gera litlar kannanir um ýmis efni og þau hafa yfirleitt gaman að því. Aðalmálið er, hvaða form er einfalt, þægilegt OG KOSTAR EKKERT! Það er hægt að nota Google forms og það er hægt að nota sambærilegt í Office. Ég setti upp einfaldar leiðbeiningar (eða ég held að þær séu það) og var bara að fatta að ég hef aldrei sett þær inn á síðuna og dreif í því núna. Ég nota Google forms en bendi mínum nemendum að þau geti líka notað Office en leiðbeiningarnar eru á Google einfaldlega af því þegar ég gerði þær vissi ég ekki af möguleikanum í Office.

Google forms er ótrúlega auðvelt og hægt að láta könnunina líta skemmtilega út. Gallinn er hinsvegar sá að þarna eru engir útreikningar heldur eingöngu talin svörin, fyrir suma er það nóg. Ég gerði myndband fyrir nemendur mína um cross analysis þar sem þau geta parað saman breyturnar og svörin ef við viljum fá að vita hversu margir af hvaða kyni eða búsetu eða eitthvað annað. Eflaust er hægt að fara margar leiðir að þessu en þetta hefur virkað ágætlega (þó sumir hafi tárast yfir þessu – stundum þarf líka að gera erfitt). En alla vega set þetta út núna þar sem ég veit að margir eru í þeim sporum að nemendur eru að skella upp könnunum fljótlega. Það eru líka tvö myndbönd varðandi uppsetningu ef við erum með algjörlega tölvuólæsa nemendur 😉

Það skemmtilegasta við þetta form er að þau geta fylgst með hversu margir svara og verða oft ótrúlega spennt.

Nýtt myndband fyrir INNU

Ég er aðeins að reyna að koma inn atriðum sem fólk hefur verið að spyrja um. Hér er örstutt myndband varðandi hvernig hægt er að skrá lágmarkseinkunn í einkunnaregluna. Hægt er að skrá á ákveðna námsþætti innan námsmatsins eða á allt námskeiðið í heild. Fer bara eftir námsmatinu sem þú ert með. Hér er tengill yfir á Innu leiðbeiningarnar og fyrir neðan er tengill beint á myndbandið.

Lágmarkseinkunn í námsþætti í Innu

Síðan uppfærð og ýmislegt nýtt að bætast við

Loksins er búið að klára að uppfæra síðuna og vonandi er hún einfaldari en áður. Komið er inn eitthvað af nýju efni undir Annað/kennslufræði og verið að vinna í meiru.

Einnig er að verið að bæta inn efni um INNU leiðbeiningarnar. Kom í ljós að það vantaði ýmislegt sem hefur bæst við hjá INNU í sumar.

Hugmyndir um efni eru vel þegnar og eins ef leiðbeiningar eru ekki nógu skýrar.

Padlet borð notað við kennslu

Logo

Ákvað að tími væri kominn á að gera logo sem fylgir síðunni. Var ekkert að flækja það neitt og með aðstoð Canva gerði ég eitt sára einfalt sem segir bara það sem segja þarf.

logo

Uppfæra síðuna

Loksins kom að því að uppfæra síðuna og gera hana þægilegri og vonandi auðveldari. Ég hef ekki breytt neinu ennþá , bara lagað það sem komið var inn. Það þarf að laga síðuna um annað því hún er mjög óaðgengileg og eiginlega bara fjandsamleg. Þar kannski að endurskýra hana þannig að hún útskýri sig sjálf. Set hugann í bleyti en ég er byrjuð að uppfæra hana og hún ætti að koma inn gjörbreytt á næstu dögum.

Annars er hugurinn að stefna í sumarfrí þó það sé nóg að gera. Þessi uppfærsla verður þó kláruð fyrst.

Upptökur – lengdin

Mitt sérlega áhugamál er upptökur og kem ég þeim að út um allt. Ég er alltaf að tuða yfir of löngum myndböndum og eflaust er fullt af fólki búið að fá alveg nóg af þessu hjá mér. En þetta skiptir mjög miklu máli að hugsa þetta aðeins því það tekur smá tíma að búa til gott kennslumyndband og því er eins gott að einhver vilji horfa á það hjá manni. Þannig er talað um að 10 mínútna mynd er ca. klukkutíma í vinnslu, eða frá upphafi og þar til það er komið inn á YouTube (ef það er sett þar inn).

Erlendar kannanir hafa sýnt að eðal lengd á kennslumyndbandi er 6 mínútur. MOOC skólar eins og EdX leggja mikla áherslu á að kennarar þeirra haldi sig innan þessa tímaramma og hafi frekar fleiri myndbönd heldur en eitt langt. Brjóti þau sem sagt niður.

Þetta er hinsvegar ekki svona einfalt. Sum myndbönd eru einfaldlega lengri og verða að vera lengri. Kannanir hafa sýnt að ef áhorfandi telur sig vera að fá eitthvað út úr myndbandinu þá horfir hann áfram.

Fyrirlestrar eru oft lengri en þau myndbönd sem taka á afmörkuðu efni en þau mega samt ekki fara langt fram úr tíma. TedX fyrirlestrar t.d. mega ekki fara yfir 18 mínútur, ef þau eru lengri þá eru þau ekki birt. Skipuleggjendur þar segja að 18 mínútur sé nógu langur tími fyrir fyrirlesara til þess að lýsa ákveðinni hugmynd og um leið nógu stuttur til að áhorfandi eigi að geta tekið inn og skilið það mikilvægasta úr fyrirlestrinum.

Fjarkennarinn

Margir kennarar eru í þeirri stöðu í dag að vera allt í einu orðnir fjarkennarar. Þetta er vonandi tímabundið ástand en þó er ýmislegt hægt að gera til að auðvelda sér ástandið. Það eru fimm þættir sem fjarkennari þarf að hafa í huga og ef þeir eru svona nokkurn veginn í lagi þá getur það auðveldað ýmislegt. Þessir fimm þættir eru: Sýnileiki, skipulagning, umhyggja, greiningar og það að vera fyrirmynd. Þetta er sett upp á eftirfarandi mynd:

ZOOM breakout rooms

Er búin að vera skoða möguleikana hjá ZOOM í morgun. Fékk fyrirspurn frá kennara í allt öðru landi í allt öðrum skóla (var þetta ekki í einhverjum texta?) og við sátum og veltum fyrir okkur margvíslegum möguleikum á „breakout rooms“ og upptökum. Það er nú skemmtilegra að henda svona á milli heldur en rolast alveg einn, það verður að viðurkennast 😉

Allt komið á fullt

Ég hef ekki sett neitt inn á síðuna síðan í júní. Ég hef aðallega verið að lesa og horfa á myndbönd um fjarkennslu. Nú eru allir í sömu sporum út um allan heim og það þýðir að það er miklu meira af góðu og aðgengilegu efni fáanlegt. Ég hef dottið ofan í nokkra gúrúa og mun setja inn tengla og efni frá þeim eftir því sem það er tilbúið. Þessa dagana er ég hins vegar nær eingöngu að horfa á INNU og hvernig hægt er að nota hana sem best. Ég vona að ég komi nokkrum myndböndum því tengdu inn um helgina.