Kannanir í Google forms

Það er skemmtilegt að fá nemendur til að gera litlar kannanir um ýmis efni og þau hafa yfirleitt gaman að því. Aðalmálið er, hvaða form er einfalt, þægilegt OG KOSTAR EKKERT! Það er hægt að nota Google forms og það er hægt að nota sambærilegt í Office. Ég setti upp einfaldar leiðbeiningar (eða ég held að þær séu það) og var bara að fatta að ég hef aldrei sett þær inn á síðuna og dreif í því núna. Ég nota Google forms en bendi mínum nemendum að þau geti líka notað Office en leiðbeiningarnar eru á Google einfaldlega af því þegar ég gerði þær vissi ég ekki af möguleikanum í Office.

Google forms er ótrúlega auðvelt og hægt að láta könnunina líta skemmtilega út. Gallinn er hinsvegar sá að þarna eru engir útreikningar heldur eingöngu talin svörin, fyrir suma er það nóg. Ég gerði myndband fyrir nemendur mína um cross analysis þar sem þau geta parað saman breyturnar og svörin ef við viljum fá að vita hversu margir af hvaða kyni eða búsetu eða eitthvað annað. Eflaust er hægt að fara margar leiðir að þessu en þetta hefur virkað ágætlega (þó sumir hafi tárast yfir þessu – stundum þarf líka að gera erfitt). En alla vega set þetta út núna þar sem ég veit að margir eru í þeim sporum að nemendur eru að skella upp könnunum fljótlega. Það eru líka tvö myndbönd varðandi uppsetningu ef við erum með algjörlega tölvuólæsa nemendur 😉

Það skemmtilegasta við þetta form er að þau geta fylgst með hversu margir svara og verða oft ótrúlega spennt.

Nýtt myndband fyrir INNU

Ég er aðeins að reyna að koma inn atriðum sem fólk hefur verið að spyrja um. Hér er örstutt myndband varðandi hvernig hægt er að skrá lágmarkseinkunn í einkunnaregluna. Hægt er að skrá á ákveðna námsþætti innan námsmatsins eða á allt námskeiðið í heild. Fer bara eftir námsmatinu sem þú ert með. Hér er tengill yfir á Innu leiðbeiningarnar og fyrir neðan er tengill beint á myndbandið.

Lágmarkseinkunn í námsþætti í Innu

Síðan uppfærð og ýmislegt nýtt að bætast við

Loksins er búið að klára að uppfæra síðuna og vonandi er hún einfaldari en áður. Komið er inn eitthvað af nýju efni undir Annað/kennslufræði og verið að vinna í meiru.

Einnig er að verið að bæta inn efni um INNU leiðbeiningarnar. Kom í ljós að það vantaði ýmislegt sem hefur bæst við hjá INNU í sumar.

Hugmyndir um efni eru vel þegnar og eins ef leiðbeiningar eru ekki nógu skýrar.

Padlet borð notað við kennslu

Þrjár vikur

Þá eru liðnar þrjár vikur og búið að lengja um fjórar vikur í viðbót, eða til 4. maí. Spurning með að fara að setja niður eitthvað kerfi yfir daginn. Eina kerfið sem hefur verið í gangi er að vinna og fara út með hundinn. Passa tvo metrana. Muna geðheilsuna. Nú held ég að það sé komið að því að snúa vörn í sókn og ákveða vinnutíma og gera svo eitthvað skemmtilegt hinn hluta dagsins.

Ég er með nokkur verkefni sem þarf að klára og nemendur sem þarf að sinna (þó ég hafi sagt þeim að þau séu núna í páskafríi). Spurning að kaupa svo málningu og mála? Er ekki alveg með nennuna fyrir því en þetta er samt upplagður tími (og svo er sagt að það sé gaman að horfa á málningu þorna ef maður hefur ekkert annað).

Ég hef ekki nennt að fara út í alla þessa lista yfir fyrrverandi störf og hvítar og gular myndir og guð veit hvað. Það var það sem var ráðandi í þessari viku. Tók við af brjálæðinu með að fara í peysu standandi á höndum og allt það. Ákvað að hvorugt væri fyrir mig.

„Sá hjá einni að skemmtilegt væri að vera með lista yfir 10 manns sem maður hefur sofið hjá og einn sem maður hefur ekki sofið hjá og giskiði svo“.

Gamli pönkarinn spratt upp og ég fór að setja saman lista í huganum en hugsaði svo nahhh eða kannski ekki.

Úti er allt á kafi í snjó enda skipti ég yfir á sumardekk fyrir helgina og keypti hlaupaskó fyrir krakkann. Hún hefur örugglega lagst á bæn til máttarvaldanna að veðrið yrði klikk því hún var nú ekki ánægð með þessa hugmynd. Ég er búin að sjá okkur mæðgurnar hlaupa fjaðurmögnuðum skrefum yfir holt og hæðir með bros á vör og roða í kinnum (raunveruleikinn er auðvitað að krakkinn væri þannig og ég hjassaðist á eftir með örmögnun í augunum, eldrauð í framan með tunguna lafandi).

Súkkulaðiátið sem ég nefndi í síðustu viku er enn til staðar og uppsöfnun á páskaeggjum í gangi. Við erum að hugsa um að byrja fyrir páska á því stærsta og borða okkur svo niður til páskadags. Hljómar eins og tónlist í mínum eyrum. En ég kaupi bara íslenskt nammi (súkkulaði) og næ þannig alveg að selja mér hugmyndina um aukið súkkulaðiát.

„Varðandi drykkjuskap þá þarf ég að fara að fara að hlusta á Ölmu, ekki bara Víði“.

Nú er ég farin að drekka einn bjór um hverja helgi og veit ekki hvert þetta stefnir. Þarf örugglega að fara í einhverja súkkulaði- og alkahól afvötnun eftir að Covid kveður. En plúsinn væri að þar yrðu örugglega margir af vinunum líka þannig að við næðum aftur upp nándinni sem við erum að tapa niður.

Áfram við og tveggja metra reglan!

Tvær vikur búnar

Jibbí! Veit samt ekki alveg af hverju ég er að telja niður þar sem endapunkturinn virðist vera svolítið óljós. En það er samt að gott að telja niður og merkja við að einhverju sé lokið. Svo tekur maður næsta.

Vikan er búin að vera ágæt, fullt af allskonar verkefnum. Ef ég ætti að koma með starfslýsingu í dag væri hún bara eitt orð:

Allskonar!

Já einfalt og gott, mér er ekkert óviðkomandi og ég skipti mér að öllu. Þarf aðeins að laga leiðbeiningasíðuna. Eftir því sem bætist á hana sé ég að ég verð að flokka aðeins efnið, ekki nóg að hafa bara í stafrófsröð. Mér var líka bent á það að það er ekki góð hugmynd að vera með pdf skjöl þar sem þau lesast illa í símum nema fólk sé með app til þess sem fæstir hafa. Þannig að helgin verður lögð í að laga það. Ég átti samt að vita þetta og hefði sparað mér smá vinnu ef ég hefði munað það.

Um helgina ætla ég líka að stýra bókaklúbbnum mínum inn á Zoom. Við verðum eiginlega að segja frá bókunum sem við erum að lesa, namminu sem við gúffum í okkur, æfingunum sem við gerum ekki og böngsunum sem eru komnir út í glugga. Þetta er allt mikilvægur þáttur í að lifa af þessa dagana. Ég var t.d. hætt að borða nammi, ekki borðað það í heilt ár. Ekki páskaegg, ekkert um jólin, ekkert. En núna lít ég á það sem siðferðislega skyldu mína að styðja við íslenskan iðnað og kaupa íslenskt nammi. Ég fer líka í Ríkið og stend í röð með öllum hinum til að sýna samstöðu. Tveir metrar á milli. Og svo eru það æfingarnar. Mamma mia! Ég er með svo mörg öpp til að gera æfingar: Fit æfingar, Yoga, Dans, klæða sig í einhverja peysudruslu á hvolfi (er verið að reyna að drepa mann úr einhverju fljótlegra en vírus?) og svo allt hitt. Allt eflaust mjög skemmtilegt. En ég held mig bara við vinnuna (og borða nammi) (og drekk vín á fjarfundum) (og dáist að öllum sem eru komnir á þrekhjól heima hjá sér).

Þetta er lífið á Corona tímum hjá tölvunördinum og vinnualkanum. Nú getur maður án þess að afsaka sig verið alltaf að vinna. Vinnan er hvort eð komin heim á borðstofuborð, eins gott að sinna henni.

Fyrsta vikan í fjarnámi

Það er kominn sunnudagur og nú er við hæfi að líta til baka yfir síðustu viku. Lokun framhaldsskólanna skall á með miklum þunga á mánudagsmorgun og strax varð ljóst að vinnan yrði gífurleg við að halda utan um nemendur, kenna og læra á nýja tækni. Þetta hefur hinsvegar gengið vonum framar og ótrúlegt hvað þetta hefur gengið hnökralaust. Auðvitað er það ljóst að allir eru að leggja á sig miklu meiri vinnu en áður en það er enginn að kvarta og allir ganga að sínu með bros á vör. Kennarar nota upptökur, eru í beinni, nota hljóðupptökur, sýna reikningsdæmi á skjá, halda utan um íþróttaiðkun og eru með ýmiskonar áskoranir í gangi, skúlptúrar í beinni, allskonar fleira sem ég man ekki í augnablikinu, allir á fjarfundum og Teams hægri og vinstri. Meira segja happy hour á fjarfundi kl 18 síðasta föstudag. Þá sat fólk heima hjá sér fyrir framan skjáinn með drykk að eigin vali og ræddi liðna viku. Alveg ótrúlega gefandi og skemmtilegt. Það er nefnilega líka hægt að leyfa sér að hafa dálítið gaman þó erfitt sé í ári.

Ég verð að viðurkenna að ég reiknaði samt ekki með þessu þegar ég ákvað að skipta um vinnu á gamals aldri. Þetta er búið að vera dálítið eins og góð törn í fiskinum í gamla daga, nema án svuntunnar og stígvélanna.

Leiðbeiningasíðan er í vinnslu en er samt orðin hæf til að vinna eftir og svo bæti ég bara efni inn um leið og það klárast eða samkvæmt beiðni frá kennurum ef það er brýnna.

Svona er aðstaðan á borðstofuborðinu mínu (hefði nú kannski átt að snúa frussspjaldinu áður en ég tók myndina, það lítur út eins og ég viti ekki hvernig það á að vera). Skókassinn og bókin „Hver er ég?“ eru til að hækka tölvuna svo ég komi nú vel út í mynd. Það hefur nú samt ekki alveg virkað, ég er enn með baugana og úfna hárið, þarf kannski að fá mér sminku. Þekki eina hérna rétt við hliðina á mér en hún er í sóttkví og lítið gagn að því.

Til hvers

Til að byrja með verður þessi síða eingöngu fyrir tengla á rafrænt kennsluefni og leiðbeiningar.

Hvers vegna?

  • Framhaldsskólar þurfa að fara yfir í fjarnám mjög skyndilega vegna Covid-19.
  • Þrír framhaldsskólar og til að vera örugg með að allir komist í efnið þá byrjum við hér

FG, Flensborg og FS.

  • Hér verða tenglar á myndbönd á Youtube með leiðbeiningum og einnig skriflegar leiðbeiningar á Pdf skjölum.