Tvær vikur búnar

Jibbí! Veit samt ekki alveg af hverju ég er að telja niður þar sem endapunkturinn virðist vera svolítið óljós. En það er samt að gott að telja niður og merkja við að einhverju sé lokið. Svo tekur maður næsta.

Vikan er búin að vera ágæt, fullt af allskonar verkefnum. Ef ég ætti að koma með starfslýsingu í dag væri hún bara eitt orð:

Allskonar!

Já einfalt og gott, mér er ekkert óviðkomandi og ég skipti mér að öllu. Þarf aðeins að laga leiðbeiningasíðuna. Eftir því sem bætist á hana sé ég að ég verð að flokka aðeins efnið, ekki nóg að hafa bara í stafrófsröð. Mér var líka bent á það að það er ekki góð hugmynd að vera með pdf skjöl þar sem þau lesast illa í símum nema fólk sé með app til þess sem fæstir hafa. Þannig að helgin verður lögð í að laga það. Ég átti samt að vita þetta og hefði sparað mér smá vinnu ef ég hefði munað það.

Um helgina ætla ég líka að stýra bókaklúbbnum mínum inn á Zoom. Við verðum eiginlega að segja frá bókunum sem við erum að lesa, namminu sem við gúffum í okkur, æfingunum sem við gerum ekki og böngsunum sem eru komnir út í glugga. Þetta er allt mikilvægur þáttur í að lifa af þessa dagana. Ég var t.d. hætt að borða nammi, ekki borðað það í heilt ár. Ekki páskaegg, ekkert um jólin, ekkert. En núna lít ég á það sem siðferðislega skyldu mína að styðja við íslenskan iðnað og kaupa íslenskt nammi. Ég fer líka í Ríkið og stend í röð með öllum hinum til að sýna samstöðu. Tveir metrar á milli. Og svo eru það æfingarnar. Mamma mia! Ég er með svo mörg öpp til að gera æfingar: Fit æfingar, Yoga, Dans, klæða sig í einhverja peysudruslu á hvolfi (er verið að reyna að drepa mann úr einhverju fljótlegra en vírus?) og svo allt hitt. Allt eflaust mjög skemmtilegt. En ég held mig bara við vinnuna (og borða nammi) (og drekk vín á fjarfundum) (og dáist að öllum sem eru komnir á þrekhjól heima hjá sér).

Þetta er lífið á Corona tímum hjá tölvunördinum og vinnualkanum. Nú getur maður án þess að afsaka sig verið alltaf að vinna. Vinnan er hvort eð komin heim á borðstofuborð, eins gott að sinna henni.

Fyrsta vikan í fjarnámi

Það er kominn sunnudagur og nú er við hæfi að líta til baka yfir síðustu viku. Lokun framhaldsskólanna skall á með miklum þunga á mánudagsmorgun og strax varð ljóst að vinnan yrði gífurleg við að halda utan um nemendur, kenna og læra á nýja tækni. Þetta hefur hinsvegar gengið vonum framar og ótrúlegt hvað þetta hefur gengið hnökralaust. Auðvitað er það ljóst að allir eru að leggja á sig miklu meiri vinnu en áður en það er enginn að kvarta og allir ganga að sínu með bros á vör. Kennarar nota upptökur, eru í beinni, nota hljóðupptökur, sýna reikningsdæmi á skjá, halda utan um íþróttaiðkun og eru með ýmiskonar áskoranir í gangi, skúlptúrar í beinni, allskonar fleira sem ég man ekki í augnablikinu, allir á fjarfundum og Teams hægri og vinstri. Meira segja happy hour á fjarfundi kl 18 síðasta föstudag. Þá sat fólk heima hjá sér fyrir framan skjáinn með drykk að eigin vali og ræddi liðna viku. Alveg ótrúlega gefandi og skemmtilegt. Það er nefnilega líka hægt að leyfa sér að hafa dálítið gaman þó erfitt sé í ári.

Ég verð að viðurkenna að ég reiknaði samt ekki með þessu þegar ég ákvað að skipta um vinnu á gamals aldri. Þetta er búið að vera dálítið eins og góð törn í fiskinum í gamla daga, nema án svuntunnar og stígvélanna.

Leiðbeiningasíðan er í vinnslu en er samt orðin hæf til að vinna eftir og svo bæti ég bara efni inn um leið og það klárast eða samkvæmt beiðni frá kennurum ef það er brýnna.

Svona er aðstaðan á borðstofuborðinu mínu (hefði nú kannski átt að snúa frussspjaldinu áður en ég tók myndina, það lítur út eins og ég viti ekki hvernig það á að vera). Skókassinn og bókin „Hver er ég?“ eru til að hækka tölvuna svo ég komi nú vel út í mynd. Það hefur nú samt ekki alveg virkað, ég er enn með baugana og úfna hárið, þarf kannski að fá mér sminku. Þekki eina hérna rétt við hliðina á mér en hún er í sóttkví og lítið gagn að því.

Til hvers

Til að byrja með verður þessi síða eingöngu fyrir tengla á rafrænt kennsluefni og leiðbeiningar.

Hvers vegna?

  • Framhaldsskólar þurfa að fara yfir í fjarnám mjög skyndilega vegna Covid-19.
  • Þrír framhaldsskólar og til að vera örugg með að allir komist í efnið þá byrjum við hér

FG, Flensborg og FS.

  • Hér verða tenglar á myndbönd á Youtube með leiðbeiningum og einnig skriflegar leiðbeiningar á Pdf skjölum.