Jibbí! Veit samt ekki alveg af hverju ég er að telja niður þar sem endapunkturinn virðist vera svolítið óljós. En það er samt að gott að telja niður og merkja við að einhverju sé lokið. Svo tekur maður næsta.
Vikan er búin að vera ágæt, fullt af allskonar verkefnum. Ef ég ætti að koma með starfslýsingu í dag væri hún bara eitt orð:
Allskonar!
Já einfalt og gott, mér er ekkert óviðkomandi og ég skipti mér að öllu. Þarf aðeins að laga leiðbeiningasíðuna. Eftir því sem bætist á hana sé ég að ég verð að flokka aðeins efnið, ekki nóg að hafa bara í stafrófsröð. Mér var líka bent á það að það er ekki góð hugmynd að vera með pdf skjöl þar sem þau lesast illa í símum nema fólk sé með app til þess sem fæstir hafa. Þannig að helgin verður lögð í að laga það. Ég átti samt að vita þetta og hefði sparað mér smá vinnu ef ég hefði munað það.
Um helgina ætla ég líka að stýra bókaklúbbnum mínum inn á Zoom. Við verðum eiginlega að segja frá bókunum sem við erum að lesa, namminu sem við gúffum í okkur, æfingunum sem við gerum ekki og böngsunum sem eru komnir út í glugga. Þetta er allt mikilvægur þáttur í að lifa af þessa dagana. Ég var t.d. hætt að borða nammi, ekki borðað það í heilt ár. Ekki páskaegg, ekkert um jólin, ekkert. En núna lít ég á það sem siðferðislega skyldu mína að styðja við íslenskan iðnað og kaupa íslenskt nammi. Ég fer líka í Ríkið og stend í röð með öllum hinum til að sýna samstöðu. Tveir metrar á milli. Og svo eru það æfingarnar. Mamma mia! Ég er með svo mörg öpp til að gera æfingar: Fit æfingar, Yoga, Dans, klæða sig í einhverja peysudruslu á hvolfi (er verið að reyna að drepa mann úr einhverju fljótlegra en vírus?) og svo allt hitt. Allt eflaust mjög skemmtilegt. En ég held mig bara við vinnuna (og borða nammi) (og drekk vín á fjarfundum) (og dáist að öllum sem eru komnir á þrekhjól heima hjá sér).
Þetta er lífið á Corona tímum hjá tölvunördinum og vinnualkanum. Nú getur maður án þess að afsaka sig verið alltaf að vinna. Vinnan er hvort eð komin heim á borðstofuborð, eins gott að sinna henni.