Fyrsta vikan í fjarnámi

Það er kominn sunnudagur og nú er við hæfi að líta til baka yfir síðustu viku. Lokun framhaldsskólanna skall á með miklum þunga á mánudagsmorgun og strax varð ljóst að vinnan yrði gífurleg við að halda utan um nemendur, kenna og læra á nýja tækni. Þetta hefur hinsvegar gengið vonum framar og ótrúlegt hvað þetta hefur gengið hnökralaust. Auðvitað er það ljóst að allir eru að leggja á sig miklu meiri vinnu en áður en það er enginn að kvarta og allir ganga að sínu með bros á vör. Kennarar nota upptökur, eru í beinni, nota hljóðupptökur, sýna reikningsdæmi á skjá, halda utan um íþróttaiðkun og eru með ýmiskonar áskoranir í gangi, skúlptúrar í beinni, allskonar fleira sem ég man ekki í augnablikinu, allir á fjarfundum og Teams hægri og vinstri. Meira segja happy hour á fjarfundi kl 18 síðasta föstudag. Þá sat fólk heima hjá sér fyrir framan skjáinn með drykk að eigin vali og ræddi liðna viku. Alveg ótrúlega gefandi og skemmtilegt. Það er nefnilega líka hægt að leyfa sér að hafa dálítið gaman þó erfitt sé í ári.

Ég verð að viðurkenna að ég reiknaði samt ekki með þessu þegar ég ákvað að skipta um vinnu á gamals aldri. Þetta er búið að vera dálítið eins og góð törn í fiskinum í gamla daga, nema án svuntunnar og stígvélanna.

Leiðbeiningasíðan er í vinnslu en er samt orðin hæf til að vinna eftir og svo bæti ég bara efni inn um leið og það klárast eða samkvæmt beiðni frá kennurum ef það er brýnna.

Svona er aðstaðan á borðstofuborðinu mínu (hefði nú kannski átt að snúa frussspjaldinu áður en ég tók myndina, það lítur út eins og ég viti ekki hvernig það á að vera). Skókassinn og bókin „Hver er ég?“ eru til að hækka tölvuna svo ég komi nú vel út í mynd. Það hefur nú samt ekki alveg virkað, ég er enn með baugana og úfna hárið, þarf kannski að fá mér sminku. Þekki eina hérna rétt við hliðina á mér en hún er í sóttkví og lítið gagn að því.