Tæknin er ekki kennslufræðin

Ég stal þessum titli úr grein eftir Sean Michael Morris sjá hér. Þetta eru hugleiðingar um tæknina og kennsluna þegar allir skólar þurftu að skella sér „online“ án nokkurs fyrirvara.

Málið er eins og hann segir að við megum ekki rugla saman tækninni sem við höfum og kennslufræðinni, þ.e.a.s. hvernig við náum til nemenda. Það er ekki bara að henda efninu á skjáinn og kenna í gegnum hann, heldur hvernig ætlum við að ná til nemenda? Eða eins og hann segir í greininni: teach through the screen, not to the screen. Við getum dregið upp alla heimsins tækni og tæknibrellur en þegar upp er staðið er það alltaf hvernig næ ég sambandi við nemandann?

Hvet ykkur til að lesa greinina, hún vekur mann til umhugsunar. Við höfum núna fullt af tækifærum til að bæta inn rafrænum kennsluháttum en verðum að passa okkur að gleyma ekki mannlega þættinum.

Uppfærð leiðbeiningasíðan

í dag ætla ég að setja uppfærða leiðbeiningasíðu í loftið sem tekur við af hinni. Það er komið meira efni og uppsetningin aðeins betri að ég held. Sumir flokkarnir eru enn tómir en það kemur efni í þá um leið og það er tilbúið.

https://kennsluradgjof.com/leidbeiningar-um-rafraena-starfshaetti/

Ég er búin að vera að skoða kennslumyndbönd, aðallega hjá Russell Stannard og fylgi í rauninni í hans spor með uppsetningu og annað. Auðvitað geta allir farið inn á YouTube rásina hans og skoðað efnið sem hann er með og hvet ég fólk til að gera það. Margir kennarar hafa hinsvegar sagt mér að þeir kjósi frekar efni á íslensku þannig að það er það sem ég er að útbúa núna. Tekur smá tíma en allt gengur þetta.

Júní

Það er kominn nýr mánuður ekki seinna vænna en að byrja að undirbúa haustönnina. Það er heilmikið sem á eftir að gera. Vinnan fram að þessu hefur aðallega verið að skella inn nýjum leiðbeiningum og vera til staðar eftir því sem þarf. Nú er hinsvegar hægt að byrja að skipuleggja betur og sjá hvað er mest áríðandi fyrir kennara.

Ég ætla að taka upp ferlið í INNU þegar sett er upp einkunnaregla fyrir námskeið og í framhaldi af því hvernig einkunnareglan er tengd við einstaka verkefnaþætti. Það gerir það að verkum að skráning einkunna og utanumhald verður meira rafræn og minni vinna vonandi sem fer í þá þætti.

Ég er búin að vera að horfa á ógrynni af myndböndum um rafræna kennslu undanfarnar vikur. Myndbönd sem fjalla að miklu leiti um hvernig hægt er að kenna rafrænt og bæta við efni inn í rauntímakennslu.

Held að það sé ljóst að enginn vilji fara þá leið aftur að hafa alla kennslu rafræna en hinsvegar gæti það verið ágætis viðbót þar sem það á við. Það hentar hvorki öllum kennurum eða nemendum að vera í fjarkennslu/námi. Það er hinsvegar mjög mikið til af efni sem hægt er að bæta inn í kennslu til þess að hafa kennsluhætti fjölbreyttari. Aðalmálið sem þarf að hugsa um er að þetta þarf að vera efni sem er gott námsefni og það má alveg vera skemmtilegt. Það er auðveldara að læra ef efnið er skemmtilega upp sett og er skemmtilegt þannig að það höfði til nemandans. Auðvitað er það þannig að það höfðar ekki það sama til allra en þá er málið að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti og þannig ná til sem flestra.