Leiðbeiningar um rafræna kennslu

Leiðbeiningarnar eru flokkaðar gróflega eftir því hvers eðlis þær eru. Flokkarnir eru í stafrófsröð til þess að auðvelda leit.

 

Myndböndin munu koma beint inn á síðuna þannig að auðvelt sé að sjá þau og tenglar eru á efni sem ekki eru myndbönd.

 

Flokkarnir eru: Almennar leiðbeiningar um fjarkennslu, Hljóðupptökur, Kennsla á rauntíma, Microsoft, Námsmat, Skrár – að breyta og senda, Stærðfræði, Svindl, Tungumál, Turnitin, Vendikennsla, Virkni í tímum – að auka þátttöku nemenda í kennslutímanum og YouTube.

Almennar leiðbeiningar

Fyrstu skrefin

Að ýmsu þarf að hyggja þegar kennarar ætla að fara að kenna í fjarkennslu. Hér eru nokkur atriði sem ágætt er að hafa í huga í fyrsta skipti sem kenna á í rauntíma (online) eða með annarri fjarkennslu: Átta ráð til umhugsunar

Kennslukerfi

Kennslukerfin sem notuð eru tvö; INNA í öllum skólunum þremur og Moodle að hluta til í einum af skólunum. Efni um INNU er á sérsíðu en einhverjar upplýsingar eru líka hér neðar á þessari síðu.

Kennslukerfi eða námsumsjónarkerfi eru almennt þau orð sem notuð eru um Learning Management System – LMS. Til þess að flokkast sem kennslukerfi verða að vera viss atriði til staðar; stjórnunarlegur hluti fyrir yfirstjórn skóla, skráning nemenda, allt utanumhald um feril nemenda, skýrslugerðir, áfangar, einkunna utanumhald og margt fleira. Ef kerfi hefur ekki þessa þætti þá er ekki um kennslu- eða námsumsjónarkerfi að ræða. Þannig t.d. er Google Classroom ekki flokkað sem LMS kerfi þar sem í það vantar ákveðna hluta. Það er hins vegar gott kerfi fyrir marga kennara til að nota við kennslu.

Kennsluefni

Hægt er að nota ýmsar aðferðir til að búa til kennsluefni sem nota á í fjarkennslu, hér er farið í nokkrum orðum yfir það helsta: 

 

Hljóðupptökur

Audacity – Podcast – Hljóð

Audacity er mjög gott forrit til að búa til podcast eða hljóðupptökur. Það er ókeypis og hægt að klippa og laga. Bæta inn öðru efni og svo framvegis.

Ef ekki á að að nota skránna beint inn á kennslukerfið er t.d. hægt að setja það á SoundCloud sem leyfir 180 mínútur ókeypis.

Það er ekki hægt að setja hljóðskrá á YouTube nema breyta henni fyrst í myndskrá (video).

Slóðin á forritið er https://www.audacityteam.org/

 

Kennsla á rauntíma

Facebook

Það getur verið góð hugmynd að nota Facebook til að ná til nemenda. Þá þarf að stofna hóp, passa að hafa hann „private“ eða falinn þannig að enginn komist í hann nema þeir sem eiga að vera þar. Nemendum er sendur tengill á hópinn og þeir sækja um þannig að kennari geti samþykkt þá sem eiga að vera í hópnum. Passa verður að hafa ekkert einkunnatengt í hópnum og ekki skila verkefnum þar inn.

INNA

INNA er það kennslukerfi sem flestir framhaldsskólar nota í dag. Það er tiltölulega einfalt og býður upp á ákveðna möguleika. Kennarar þurfa að vera duglegir að láta samstarfshópa um INNUmál í sínum skóla vita ef eitthvað vantar.

Að nota umræður í INNU: Leiðbeiningar

INNA Fjarkennsla

Búið er að bæta við möguleika í INNU til að vera með fjarkennslu á rauntíma í mynd. Þetta er fjarfundabúnaðurinn BigBlueButton. Þarna er hægt að vera með kennslu í rauntíma og einnig hægt að taka upp tímann þannig að nemendur geti horft seinna.

Nemendur sem nota Makkavélar og Ipad er ráðlagt að nota Safari vafrann frekar en aðra vafra.

 

Microsoft

Fyrstu skrefin

 

Námsmat

Matskvarðar

Á heimasíðu Kennslumiðstöðvar HÍ er að finna nokkur dæmi um matskvarða eða rúbrikkur. Kennarar sem eru að hugsa um að taka það upp gætu fundið nytsamleg dæmi um uppsetningu og stigagjöf. Matskvarðar flýta fyrir og einfalda yfirferð á verkefnum og tryggir sanngjarnara mat: Matskvarðar

Ólíkt námsmat

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands hefur tekið saman nokkrar leiðir til að gera námsmat og eru þær að einhverju leyti miðaðar við að ekki sé hægt að taka próf í dæmigerðu staðnámi: Námsmat

 

Skrár – að breyta og senda

Að breyta skrám

Oft getur verið nauðsynlegt að breyta skrám í annað format og er það yfirleitt vegna þess að viðkomandi tölva les ekki skráarsniðið. Gott dæmi um það er ef þarf að breyta mynd yfir í PDF eða öfugt. Langfljótlegast er að fara á Netið og gúggla viðkomandi skrá með how to convert to…. Hér er ein slóð sem ég hef notað en kosturinn við þessa er að þar eru í boði mjög margar skráartegundir en á mörgum síðum eru boðið upp á frekar fáar skráartegundir: https://cloudconvert.com/

Ókeypis útgáfan leyfir það sem þeir kalla 25 convert mínútur á dag en þó færsla sé nokkrar sekúndur er hún talin sem 1 mínúta. Síðan er hægt að borga ýmsa pakka ef þarf að nota meira en þetta.

Eðlilegast er að nemendur geri þetta sjálfir og sendi ykkur á réttu formati sem þið hafið tilgreint. Það getur farið óratími hjá kennara með stóran hóp að breyta mörgum skjölum meðan nemandinn hefur væntanlega bara eina eða tvær skrár hverju sinni. Það verður líka til þess að nemendur verði meðvitaðri um skráarsnið og formöt.

Að breyta og vinna með myndir

Eitt besta forritið til að vinna með leiðbeiningarmyndir er Snagit. Það hinsvegar kostar um USD 50 og spurning hversu mikið viðkomandi ætlar að nota það. Ég nota það mjög mikið og það sparar mér umtalsverða vinnu við að fara á milli forrita og geta gert allt á einum stað.

Forritið vinnur þannig að það tekur Screenshot af öllum skjánum eða völdum hluta hans, merkt inn á myndina það sem þarf og hægt að senda beint yfir í nokkur forrit án þess að þurfa að vista á milli og ná í aftur.

Einnig er hægt að gera upptökur þar og leiðbeiningar um það eru á upptökusíðunni.

We transfer

Ef þarf að færa eða senda stór skjöl þá getur verið hugmynd að nota Wetransfer sem er ókeypis forrit. Þar er hægt að senda allt upp að 2Gb stór skjöl á milli; https://wetransfer.com/ 

 

Stærðfræði

Forrit til að reikna og/eða taka upp útskýringar

Til eru mjög mörg forrit og öpp til að taka upp handskrifuð dæmi. Kennarar hafa m.a. verið að nota þessi þrjú:

Explain Everything

Explain Everything er whiteboard forrit með möguleika á upptöku með hljóði. Forritið er ókeypis fyrir allt að þrjú verkefni en kostar um 25 dollara fyrir kennara ef það eru undir 10 kennurum frá sama skóla að nota forritið en annars minna.

Auðvelt er að nota forritið til að sýna stærðfræðiformúlur en að auki er hægt að bæta inn myndum, skjölum, myndböndum og fleira ef þörf er á.

Hér er kynningarmyndband á ensku varðandi hvernig kennarar geta notað forritið:

Doceri

Doceri er annað forrit sem hægt er að nota. Það er ókeypis ef fólk vill hafa vatnsmerki frá þeim. Hægt er að nota þetta bæði á Ipad og borðtölvu. Kynningarmyndband á ensku er hér:

Educreations

Educreations er fremur einfalt í notkun og virkar aðeins öðru vísi en hin tvö á þann hátt að ekki þarf að „uploda“ myndböndunum heldur er hægt að búa til tengil og nota hann. Þetta forrit er þó bara fyrir Ipad og Iphone. Kynningarmyndband á ensku er hér:

 

Svindl

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir svindl?

Að ýmsu þarf að hyggja

 

Tungumál

Flipgrid

Hefur verið notað við tungumálakennslu. Nánari upplýsingar eiga eftir að koma. Hér er myndband á ensku:

 

Turnitin

Turnitin er ritskimunarforrit til þess að að skoða heimildir og tilvísanir. Hægt er að tengja það við INNU í gegnum tenginguna Ytri kerfi. Leiðbeiningar varðandi það frá Advania er að finna í kerfinu undir Aðstoð í INNU.

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands er einnig með almennar leiðbeiningar varðandi Innu og Turnitin: https://turnitin.hi.is/fraedsla/inna/

 

Vendikennsla – Flipped teaching

Flipped Teaching eða flipped classroom

Þetta er kennsluaðferð þar sem hinni klassísku kennsluaðferð þar sem kennarinn heldur fyrirlestur er snúið við. Hér er oftast tekinn upp fyrirlestur sem nemendur skoða heima og mæta síðan í tíma til að vinna að verkefnum og komast dýpra í efnið.

Upptökurnar eru þó ekki aðalmálið, hægt er að snúa kennslunni við á fleiri vegu en taka upp fyrirlestra. Aðalmálið er að nemandinn kemur undirbúinn í tímann og fer beint í að vinna að verkefnum eða öðru í tímanum.

 Hér er stutt myndband á ensku sem skýrir aðeins út á hvað þetta gengur:

  

Virkni í tímum – að auka þátttöku nemenda í kennslutímanum

Kahoot

Er app eða tæki til að nota í rauntíma til að auka virkni í kennslustund. Það er t.d. hægt að nota það til að vera með spurningakeppni, umræður og spurningakannanir. Það er unnið þannig að fjölvalsspurningar birtast á skjánum (tjaldinu) og nemendur svara með símunum, spjaldtölvum eða á tölvum.

Kennari eða einhver annar aðili (jafnvel einn af nemendunum) útbýr verkefnið (spurningarnar og svörin), nemendur fara inn á heimasíðu Kahoot og slá þar innleikjanúmer fyrir þetta tiltekna verkefni og skrá sig inn undir nafni. Með því að ýta á start hefst leikurinn og getur kennari eða stjórnandi séð strax hversu margir eru búnir að svara hverri spurningu.

Kahoot lýsir því yfir að þeir séu með allt á hreinu tæknilega séð þannig að persónulegar upplýsingar hvers og eins séu öruggar.

Þetta er mjög mikið notað í skólakerfinu í dag um allan heim. Met var slegið árið 2017 þegar 4.092 spilarar tóku þátt í leiknum á sama tíma: https://kahoot.com/

Mentimeter

Er upplagt að nota sem „icebreaker“ í upphafi tímans. Þá er forritið keyrt upp, sett inn spurning og nemendur svara. Hægt að hafa einn eða fleiri möguleika. Þá myndast orðaský og eftir því sem fleiri nefna sama orðið því meira áberandi verður það. Getur skapað góðar umræður. https://www.mentimeter.com/

Socrative

Er annað app sem hægt er að nota á sama hátt og Kahoot. Ég veit einnig til þess að þetta forrit hafi verið notað í stórum krossaspurningaprófum við HÍ. Kaflapróf sem haldin voru reglulega og kosturinn við þau er að kennarinn þarf ekki að fara yfir prófið heldur fá nemendur niðurstöður strax og þau hafa skilað. Gallinn við þegar þetta er notað sem prófaform er að nemendur geta ekki bakkað til baka og lagað spurningu eða gert seinna: https://socrative.com/apps/

WordArt.com

Er app til að búa til orðaský (e.cloud art). Getur verið skemmtilegt að koma umræðum af stað með því að búa til orðaský. Hvaða orð/setningar dettur nemendum í hug þegar þau heyra ákveðið orð eða orðasamband. Það sem er skemmtilegt við þetta app er að hægt er að velja myndina sem á að koma út: https://wordart.com/create

Yotube

Youtube

Það er auðvelt að setja YouTube upp þannig að efni sem á saman raðast saman. Til þess að geta sett inn efni er nauðsynlegt að vera með „Google account“. Það er ekki nauðsynlegt að vera með Gmail en það að vísu auðveldar margt. Ég stofnaði opnaði mitt Gmail sérstaklega fyrir þetta á sínum tíma. Í Leiðbeiningunum er gert ráð fyrir að fólk sé búið að stofna reikning og eigi bara eftir að koma sér upp YouTube rás.

Upptökur lengri en 15 mínútur

Það er sjálfgefið á YouTube að video mega ekki vera lengri en 15 mínútur. All flestir eru undir þessum mörkum enda ráðlagt að kennsluvideó sé aldrei lengri. Þó kemur það fyrir að það þarf að fara yfir þessi tímamörk og þá þarf að fara í gegnum „verification“ fasa til að samstilla Google reikninginn og YouTube. Þetta þarf bara að gera einu sinni og virkar fyrir öll „channel“ sem eru tengd við þennan Google reikning.

Fara þarf inn á https://www.youtube.com/verify og fylgja þar þrepunum sem upp koma.