Upptökur – lengdin

Mitt sérlega áhugamál er upptökur og kem ég þeim að út um allt. Ég er alltaf að tuða yfir of löngum myndböndum og eflaust er fullt af fólki búið að fá alveg nóg af þessu hjá mér. En þetta skiptir mjög miklu máli að hugsa þetta aðeins því það tekur smá tíma að búa til gott kennslumyndband og því er eins gott að einhver vilji horfa á það hjá manni. Þannig er talað um að 10 mínútna mynd er ca. klukkutíma í vinnslu, eða frá upphafi og þar til það er komið inn á YouTube (ef það er sett þar inn).

Erlendar kannanir hafa sýnt að eðal lengd á kennslumyndbandi er 6 mínútur. MOOC skólar eins og EdX leggja mikla áherslu á að kennarar þeirra haldi sig innan þessa tímaramma og hafi frekar fleiri myndbönd heldur en eitt langt. Brjóti þau sem sagt niður.

Þetta er hinsvegar ekki svona einfalt. Sum myndbönd eru einfaldlega lengri og verða að vera lengri. Kannanir hafa sýnt að ef áhorfandi telur sig vera að fá eitthvað út úr myndbandinu þá horfir hann áfram.

Fyrirlestrar eru oft lengri en þau myndbönd sem taka á afmörkuðu efni en þau mega samt ekki fara langt fram úr tíma. TedX fyrirlestrar t.d. mega ekki fara yfir 18 mínútur, ef þau eru lengri þá eru þau ekki birt. Skipuleggjendur þar segja að 18 mínútur sé nógu langur tími fyrir fyrirlesara til þess að lýsa ákveðinni hugmynd og um leið nógu stuttur til að áhorfandi eigi að geta tekið inn og skilið það mikilvægasta úr fyrirlestrinum.