Júní

Það er kominn nýr mánuður ekki seinna vænna en að byrja að undirbúa haustönnina. Það er heilmikið sem á eftir að gera. Vinnan fram að þessu hefur aðallega verið að skella inn nýjum leiðbeiningum og vera til staðar eftir því sem þarf. Nú er hinsvegar hægt að byrja að skipuleggja betur og sjá hvað er mest áríðandi fyrir kennara.

Ég ætla að taka upp ferlið í INNU þegar sett er upp einkunnaregla fyrir námskeið og í framhaldi af því hvernig einkunnareglan er tengd við einstaka verkefnaþætti. Það gerir það að verkum að skráning einkunna og utanumhald verður meira rafræn og minni vinna vonandi sem fer í þá þætti.

Ég er búin að vera að horfa á ógrynni af myndböndum um rafræna kennslu undanfarnar vikur. Myndbönd sem fjalla að miklu leiti um hvernig hægt er að kenna rafrænt og bæta við efni inn í rauntímakennslu.

Held að það sé ljóst að enginn vilji fara þá leið aftur að hafa alla kennslu rafræna en hinsvegar gæti það verið ágætis viðbót þar sem það á við. Það hentar hvorki öllum kennurum eða nemendum að vera í fjarkennslu/námi. Það er hinsvegar mjög mikið til af efni sem hægt er að bæta inn í kennslu til þess að hafa kennsluhætti fjölbreyttari. Aðalmálið sem þarf að hugsa um er að þetta þarf að vera efni sem er gott námsefni og það má alveg vera skemmtilegt. Það er auðveldara að læra ef efnið er skemmtilega upp sett og er skemmtilegt þannig að það höfði til nemandans. Auðvitað er það þannig að það höfðar ekki það sama til allra en þá er málið að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti og þannig ná til sem flestra.