Þrjár vikur

Þá eru liðnar þrjár vikur og búið að lengja um fjórar vikur í viðbót, eða til 4. maí. Spurning með að fara að setja niður eitthvað kerfi yfir daginn. Eina kerfið sem hefur verið í gangi er að vinna og fara út með hundinn. Passa tvo metrana. Muna geðheilsuna. Nú held ég að það sé komið að því að snúa vörn í sókn og ákveða vinnutíma og gera svo eitthvað skemmtilegt hinn hluta dagsins.

Ég er með nokkur verkefni sem þarf að klára og nemendur sem þarf að sinna (þó ég hafi sagt þeim að þau séu núna í páskafríi). Spurning að kaupa svo málningu og mála? Er ekki alveg með nennuna fyrir því en þetta er samt upplagður tími (og svo er sagt að það sé gaman að horfa á málningu þorna ef maður hefur ekkert annað).

Ég hef ekki nennt að fara út í alla þessa lista yfir fyrrverandi störf og hvítar og gular myndir og guð veit hvað. Það var það sem var ráðandi í þessari viku. Tók við af brjálæðinu með að fara í peysu standandi á höndum og allt það. Ákvað að hvorugt væri fyrir mig.

„Sá hjá einni að skemmtilegt væri að vera með lista yfir 10 manns sem maður hefur sofið hjá og einn sem maður hefur ekki sofið hjá og giskiði svo“.

Gamli pönkarinn spratt upp og ég fór að setja saman lista í huganum en hugsaði svo nahhh eða kannski ekki.

Úti er allt á kafi í snjó enda skipti ég yfir á sumardekk fyrir helgina og keypti hlaupaskó fyrir krakkann. Hún hefur örugglega lagst á bæn til máttarvaldanna að veðrið yrði klikk því hún var nú ekki ánægð með þessa hugmynd. Ég er búin að sjá okkur mæðgurnar hlaupa fjaðurmögnuðum skrefum yfir holt og hæðir með bros á vör og roða í kinnum (raunveruleikinn er auðvitað að krakkinn væri þannig og ég hjassaðist á eftir með örmögnun í augunum, eldrauð í framan með tunguna lafandi).

Súkkulaðiátið sem ég nefndi í síðustu viku er enn til staðar og uppsöfnun á páskaeggjum í gangi. Við erum að hugsa um að byrja fyrir páska á því stærsta og borða okkur svo niður til páskadags. Hljómar eins og tónlist í mínum eyrum. En ég kaupi bara íslenskt nammi (súkkulaði) og næ þannig alveg að selja mér hugmyndina um aukið súkkulaðiát.

„Varðandi drykkjuskap þá þarf ég að fara að fara að hlusta á Ölmu, ekki bara Víði“.

Nú er ég farin að drekka einn bjór um hverja helgi og veit ekki hvert þetta stefnir. Þarf örugglega að fara í einhverja súkkulaði- og alkahól afvötnun eftir að Covid kveður. En plúsinn væri að þar yrðu örugglega margir af vinunum líka þannig að við næðum aftur upp nándinni sem við erum að tapa niður.

Áfram við og tveggja metra reglan!