Þá er að koma að seinni hluta Covid lokunar, eða alla vega þá erum við farin að sjá til sólar. Ekki að skólarnir verða galopnaðir upp á gátt og við flykkjumst öll inn. Nei en alla vega þannig að fólk getur tekið inn afmarkaða hópa ef þörf er á og unnið með það.
Zoom fundirnir standa enn fyrir sínu, maður þarf bara að passa að líta í spegil áður en maður sest niður og kveikir á myndavélinni, annars er voðinn vís.

Ég finn að flestir sem ég tala við eru að ganga í gegnum svipaða hluti. Orkan sem var í gangi á fyrstu vikunum er alveg að verða búin og fólk er farið að vera lengur að klára einföldustu verkefni. Verkefni sem var skotist í og klárað situr nú í tölvunni og bíður og loksins þegar hafist er handa er erfitt að halda athyglinni lengi í senn.
Facebook kallar stöðugt með einhverjum aulaleikjum sem ótrúlegasta fólk er farið að taka þátt í. Held að reikningsþrautirnar séu búnar í bili en í staðinn er kominn leikur með hvert ferðu í frí (eins og einhver sé að fara í frí (hlegið holum hlátri)). Ég birti bara myndir af hundinum eins og enginn sé morgundagurinn enda mun meira að gera hjá honum heldur en mér.
„Munum við skoppa inn eins og kálfar eða feta okkur áfram eins við séum hálffeimin við hvort annað?“
Svo er spurningin hvað gerist þegar við megum fara að vinna á vinnustað aftur (ég vil ekki alveg segja að heimili mitt geti kallast vinnustaður þó ég sé öll að vilja gerð). Munum við skoppa inn eins og kálfar eða feta okkur áfram eins við séum hálffeimin við hvort annað? Ég stend mig að því að ef fólk stendur of nálægt mér er ég farin að stíga eitt skref aftur á bak, spurning hvort það verði viðvarandi?
„Og hvernig verður með matartímana? „
Og hvernig verður með matartímana? Ég hef miklar áhyggjur af þeim. Á þessum vinnustað þar sem ég er núna (heimilið) þá er bein tenging við ísskápinn 24/7. Það þýðir að ég sit við tölvuna í ca 5 mín og sprett síðan á fætur eins og ég hafi ekki fengið að borða í nokkra daga og ryðst í ísskápinn. Það hefur ekkert bæst við hann síðan ég fór síðast fyrir 5 mín. Þetta endurtekur sig allan daginn. Sé okkur í anda í skólanum. Erfitt að viðhalda 2m reglunni þegar örvæntingafullir kennarar reyna að finna ísskápinn! Þetta verður erfitt.
„Við hvæsum stundum á hvor aðra þegar við göngum framhjá á göngunum (örlítilli stofunni).“
Ég elska barnið mitt en 23 tímar alla daga er farið að taka sinn toll. Við hvæsum stundum á hvor aðra þegar við göngum framhjá á göngunum (örlítilli stofunni). Síðan er það slagurinn um sjónvarpið. Hvort á PlayStation eða Netflix að ráða? Ég styð hið síðara en hún hið fyrra. Við horfum því manndrápsaugum á hvor aðra þar til við getum farið að borða aftur (eftir 5 mín).
„Nei þetta eru sko ekki hrukkur heldur inngróið súkkulaði!“
Og maturinn, jesúsamía! Hún vill borða hollt, smoothies og einhverja ávexti og svoleiðis. Ég borða allt, allt og aðeins meira ef hægt er. Hún fer sem betur fer ekki í ísskápinn (nema til að athuga með ávexti). Ég býð henni stundum upp á súkkulaðimola (einn) og bið í huganum að hún segi nei og hingað til hefur hún gert það. Þannig að ég sit ein í sófanum og gadda í mig Síríus súkkulaði þannig að taumarnir liggja meðfram munnvikjunum (hélduð þið að þetta væru hrukkur?). Nei þetta eru sko ekki hrukkur heldur inngróið súkkulaði!