Upptökur

Upptökur af skjá er hægt að gera með litlum tilkostnaði. Það sem þarf að vera til staðar er gott hljóð og því æskilegt að kaupa míkrafón en að öðru leyti þarf ekki meiri viðbótarbúnað.

Almennt um upptökur og kennslumyndbönd

Það er ákveðin atriði sem þarf að hafa í huga þegar gera á gott kennslumyndband sérstaklega ef ætlunin er að nota myndbandið aftur og aftur. Uppbyggingin og hvað á að vera í myndbandinu? Hvað á það að vera langt? Á ég að setja allt í eitt myndband eða skipta niður í fleiri þætti?

Camtasia

Camtasia kemur frá https://www.techsmith.com/. Þetta er forrit sem þarf að kaupa en það er ótrúlega einfalt og skemmtilegt í notkun. Hægt er að taka upp, klippa, bæta inn efni, laga hljóð og setja inn tónlist og margt fleira. Lengra komnir í upptökuferlinu ættu tvímælalaust að skoða þetta forrit. Að auki er hægt að vera gagnvirkni, t.d. að nemendur verði að svara ákveðnum spurningum rétt til þess að geta haldið áfram að horfa.

PowerPoint

Allra einfaldasta leiðin til að taka upp af skjá er hreinlega að taka upp glærur í gegnum PowerPoint. Hinsvegar verður að hafa í huga að þar er ekki boðið upp á neinar breytingar á myndbandinu. Þú færð það sem þú sérð og ekkert annað. Það er hinsvegar í sumum tilfellum alveg nóg og þá spurning hvort þurfi nokkuð að flækja málin frekar.

ScreenCastomatic

Þetta er einfalt skjáupptökuforrit. Í ókeypis útgáfunni er hægt að búa til allt að 15 mínútna langt myndband. Hægt er að kaupa áskrift og fer það eftir því hvaða leið er valin hvað það kostar (24-50 USD á ári). Leiðbeiningarnar hér miðast við ókeypis útgáfuna.

Upptökur úr kennslustundum (INNA og ZOOM)

Upptökur úr kennslustundum geta aldrei staðið einar og sér sem kennslumyndbönd. Þær geta hinsvegar verið ágæt viðbót sérstaklega ef verið er að kenna eitthvað flókið viðfangsefni sem nemendur eiga erfitt með að ná tökum á.

Kennslumyndbönd ættu að vera um 4 mínútur að lengd ef hægt er. Kannanir hafa sýnt að nemendur horfa að meðaltali í 4 mínútur. Æskilegasti tímaramminn er 2-5 mínútur. Lengri myndbönd en 15 mínútur fara að missa marks og ágætt að hafa til viðmiðunar að YouTube myndbönd eru að hámarki 15 mínútur nema farið sé í gegnum sannprófunarferlið (verification).

Varast skal að setja of mikið efni í hvert myndband til að ofbjóða ekki vitsmunalegri getu nemenda (sjá kenningu Swellers um Cognitive Overload). Þetta þýðir að kennarar þurfa að passa að koma ekki of ört með nýjar upplýsingar og annað sjónrænt áreiti. Áherslan í uppbyggingu á kennslumyndbandi ætti alltaf að vera á skýrleika og hnitmiðaðar upplýsingar.