Rafræn yfirferð verkefna í INNU

Ef kennari notar verkefni fyrir skil nemenda þá er engin ein fljótleg leið til þess að fara yfir. Í öllum tilfellum þarf að ná í skjalið, fara yfir það á skjánum, vista það og senda nemanda aftur. Ekki er hægt að skrifa bara beint í það á INNU og vista þannig að nemandi sjái athugasemdirnar.

Ef notuð eru PDF skjöl (þar sem ekki þarf að skoða hvernig skjal er sett upp) er hægt að opna forrit sem leyfir að skrifað sé beint í skjalið á skjánum, annað hvort með penna eða textaboxi. Ef þetta er notað er mikilvægt að gæta þess að kenna nemendum að senda eitt PDF skjal þó það sé á mörgum síðum. Ef það koma inn mörg skjöl er heilmikil vinna að færa hvert og eitt yfir í PDF skrifara og gera það sem gera þarf, vista og senda. Hægt er að nota appið DrawBoard PDF til þess að skrifa beint í PDF skjölin (sjá leiðbeiningar).

Ef um er að ræða Word skjöl er sama regla. Það þarf að opna skjalið, skrifa athugasemdir þar sem við á, vista skjalið og senda til baka. Seinlegasti þátturinn er að þurfa alltaf að opna skjalið eða færa í annað forrit, vista og senda. Fljótlegast er að vista allar úrlausnirnar og hafa þær þannig á einum stað.

Setja öll viðhengi nemenda í eina möppu – raðast eftir stafrófsröð

Munurinn á því að vista öll skjölin sem viðhengi og viðhengi í möppum er að í fyrra tilfellinu vistast öll skjölin í eina möppu undir nafni og kennitölu hvers nemanda en í seinna tilfellinu fer hver úrlausn í sér möppu og þá um leið komið auka skref við að opna möppur fyrir hvern og einn.

Hægt er að spara smá vinnu með því að nota athugasemdaboxin í INNU. Þá er skjalið opnað – best að hafa tvo glugga opna ef ætlunin er að flýta fyrir – annar er með skjalinu, hinn er verkefnaliðurinn í INNU. Farið er yfir skjalið á skjánum og athugasemdir skrifaðar jafnóðum inn í athugasemdadálkinn. Til þess að þetta virki sem best er lang auðveldast að tengja einkunnaþætti við verkefnið, þá er hægt að skrifa athugasemdir við hvern einkunnaþátt þannig að ekki fari á milli mála hverju athugasemdin tengist. Kannski er ekki hægt að nota þessa aðferð við öll verkefni, sumstaðar hentar það alls ekki. En þar sem það er hægt þá gæti verið umtalsverður tímasparnaður í yfirferð. Það getur verið tímafrekt að setja upp einkunnaþættina en ef verkefni er notað aftur síðar haldast einkunnaþættirnir inni. ATH að nemendur sjá einkunnaþættina þegar skilahólfið er opnað þannig að kennari þarf að gæta þess hve ítarlega hann vill hafa þá uppsetta.

Það er ljóst að það er ekki gott vinnulega séð að lesa löng skjöl á skjá. Mun auðveldara fyrir augu að lesa af pappír. Mörgum finnst það óþægilegra og hafa átt erfitt með að tileinka sér það en í því flest samt umtalsverður tímasparnaður. Hægt er að að kaupa sérstök skjágleraugu til að minnka áreiti á augu og gæti það kannski verið hjálplegt fyrir suma. Þessi gleraugu sía ákveðið magn af bláa ljósinu þannig að augun verði ekki eins þreytt.