Bæklingagerð

Í upphafi þarftu að vita þetta


  • Bæklingar eiga ekki að vera djúp nálgun á einhverju efni. Þeir eiga hinsvegar að veita nógu miklar upplýsingar til að viðhalda áhuga lesandans á efninu frá upphafi til enda.
    • ATH: Það getur verið sniðugt að koma með eitthvað atriði/efni sem sker sig frá öðrum bæklingum um sama efni.
  • Skrifaðu niður fyrirsagnir og undirfyrirsagnir sem þú heldur að henti þínum bæklingi. Skoðaðu aðra bæklinga og finndu form eða stíl sem þér finnst flottur. Oft er sniðugt að rissa upp á blað hvernig maður vill að þetta líti út.

Skrefin sem þú þarft að taka

  1. Byrjaðu á því að skrifa niður það sem þú veist um efnið án þess að gúggla neitt. Þetta er hugarflugsæfing, ekkert að spá í réttritun eða kommum og punktum. Á þessu stigi ertu að safna saman því sem þú veist nú þegar svo þú áttir þig á því hvað þarf að rannsaka betur.
  2. Skoðaðu og gúgglaðu mismunandi bæklinga. Finndu einhvern/einhverja sem þú fílar. Skoðaðu hvað þú þarft að setja inn mikið af upplýsingum fyrir hverja týpu.
  3. Rannsakaðu efnið sem á að fara í bæklinginn. Finndu einhver fimm eða sex atriði sem þú vilt leggja áherslu á.
    • ATH: Sniðugt að koma með eitthvað atriði sem sker sig frá öðrum bæklingum um sama efni.
  4. Notaðu tékklistann til að gera útlínur/yfirlit yfir hvað þú vilt að komi fram í bæklingnum.
  5. Ekki bara telja upp staðreyndir. Spurðu sjálfa(n) þig hversvegna þú myndir vilja skoða þetta efni. Hvað finnst þér áhugavert og hvað heldur þú að lesanda þætti áhugavert?
  6. Skrifaðu fyrirsagnir og undirfyrirsagnir. Settu síðan inn lýsandi texta. Prufaðu að gera lista (með bullets)
  7. Hvernig viltu nú að bæklingurinn líti út? Ætti að vera eitthvað meira en bara texti? Hvernig myndir? Passaðu að nota myndir sem eru leyfilegar eða notaðu myndir úr Canva.
  8. Farðu nú í Canva (eða það forrit sem þú ætlar að nota) og settu bæklinginn upp.
  9. Prufaðu að prenta bæklinginn út og brjóta hann saman til að sjá hvernig hann kemur út.

Hvers vegna ættir þú að gera bækling?

Ein leið til að læra eitthvað nýtt er að lesa sér til um það. Ef fólk hefur ekki mikinn tíma til að sökkva sér niður í viðfangsefnið eða er að leita að yfirliti um efnið þá er bæklingur oft snilldaraðferð til að kynna efnið. Bæklingurinn á að grípa athyglina og verða til þess að lesandinn hefur áhuga á því að vita meira um efnið.

Lýsing á verkefninu sem þú átt að gera

Þú átt að búa til bækling um ákveðið efnið í uppeldisfræðinni sem tengist námskeiðinu. Þetta eiga ekki að vera yfirgripsmiklar rannsóknir á efninu eins og í ritgerð heldur á þetta að vera nóg til að grípa lesandann og halda athyglinni frá upphafi til enda.

Bæklingurinn þinn getur verið um yfirgripsmikið efni en hann má ekki vera með svo miklum upplýsingum að hann kaffæri lesandann. Veldu þér tvö eða þrjú mikilvæg atriði um efnið sem þú ætlar að fjalla um. Önnur mikilvæg atriði eru sett upp í lista (bullets) eða myndrit einhverstaðar í bæklingnum.

Formið er A4 blað sem brotið er þrisvar og skrifað á framhlið og bakhlið (lítill bæklingur). Þú þarft að ákveða hvernig þú vilt að hann líti út.  Stundum er betra að hafa textablokkir meðan aðrir bæklingar virka betur með fullt af myndum. Einnig er hægt að setja litlar textablokkir með listum (bullets), kortum eða myndum. Hugsaðu um hvaða upplýsingar þú ert með og hvernig væri best að setja þær fram. Yfirleitt er best að einbeita sér að einu aðalatriði og vera með einhver eitt til tvö undiratriði tl þess að það komi sem best út sjónrænt.

Skipulegðu hugmyndir þínar þannig að þær renni áfram og virki vel á lesandann. Settu svipaðar hugmyndir saman svo lesandinn átti sig betur á uppsetningunni og efninu.

Hjálparefni

Bæklingurinn er settur upp á Canva (eða á forriti sem þú kannt vel á). Það má gera hann frá grunni eða finna bækling sem hentar hugmyndinni sem unnið er út frá. Hann verður að vera á íslensku og á forminu að vera þríbrotinn saman.

Hér er myndband um bæklingagerð á Canva – Bæklingur

Notaðu netið til að skanna hvort það séu til einhverjir bæklingar um svipað efni og skoðu hvað er til í kringum þig.

Heimildaskrá sett upp eftir APA7 þarf að fylgja bæklingnum en það á ekki að vitna í þær í sjálfum bæklingnum.

Tékklisti

  • Nafn þess er gerir bæklinginn – mikilvægt, það verður alltað vera einhver aðili sem hægt er að ná til varðandi bæklinginn.
  • Heimili – (þarf ekki að vera, er bara ef það á við).
  • Sími – (þarf ekki að vera, er bara ef það á við).
  • Netfang – (þarf ekki að vera, er bara ef það á við).
  • Vefsíða og samskiptamiðlar (Twitter, Faceboo, Instagram og fleira) – (þarf ekki að vera, er bara ef það á við).
  • Haus sem vekur forvitni, staðhæfir eitthvað mikilvægt eða verður til þess að lesandi grípur bæklinginn og byrjar að lesa.
  • Undirtitlar.
  • Stuttar textablokkir sem auðvelt er að lesa.
  • Listar, kort – (þarf ekki að vera, er bara ef það á við).
  • Að minnsta kosti þrjú meginatriði/aðalatriði
  • Lögunin á bæklingnum – hvernig passar mín uppsetning við það?
  • Markmiðslýsing – mission statement – Gæti líka komið fram í vinnuskjalinu ef það á ekki við að setja þetta í bæklinginn
  • Sagan – (þarf ekki að vera, er bara ef það á við)
  • Logo – (þarf ekki að vera, er bara ef það á við)
  • Myndir, bæði til upplýsinga og útskýringa ef það á við
  • Myndrit eða flæðirit (þarf ekki að vera, er bara ef það á við)
  • Kort – (þarf ekki að vera, er bara ef það á við)

Matið og hverju þú átt að skila

  1. Vinnan við bæklinginn verður 50% af mati.
  2. Þú átt að skila tilbúnum bæklingi í PDF skjali.
  3. Heimildaskrá sem er rétt upp sett eftir APA7 í Word skjali – þrjár heimildir eða fleiri.
  4. Hugmyndavinnan þín svo kennari sjái hvernig þú vannst verkið og hvað þú varst að hugsa – t.d. í word skjali – Word skjal eða mynd af hugmyndavinnunni.
  5. Hæfniþættirnir verða settir upp á INNU undir skilahólfi fyrir verkefnið
  6. ATH Ef tveir skila saman þarf einnig að setja upp plaggat sem auglýsir viðburð sem byggður er á opnunardegi sem bæklingurinn kemur út.
  7. Plaggatið verður að vera með öllum upplýsingum um viðburð sem tengist útgáfunni. Gott að miða við Lotudaginn.

Niðurstaða

Upplýsingarnar í bæklingnum verða að vera einfaldar og skýrar og hann þarf að vera skiplega uppsettur þannig að lesandinn gefist ekki upp á að lesa áður en hann klárar. Þar sem bæklingurinn segir ekki alla söguna verður hann að innihalda það mikilvægasta. Láttu lesandann fá góðar upplýsingar, skýrar og sem vekja áhuga fyrir að leita sér meiri upplýsinga.