Próf búið til

Þegar gerð eru próf í INNU þarf fyrst að búa til prófaspurningar og síðan prófið. Næsta skref er síðan að tengja saman spurningarnar og prófið og þar er hægt að velja random eða velja sjálfur. Þegar þetta er allt komið er hægt að leggja prófið fyrir nemendur.

Fyrir kennara sem notað hafa verkefnahluta INNU er þetta ekki mikil breyting að öðru leyti en því að prófin eru gagnvirk sem verkefnin eru ekki, þ.e.a.s. nemendur svara beint í INNU í stað þess að senda inn viðhengi með svörum. Vissulega er einnig hægt að láta nemendur senda inn viðhengi í prófi og er það val hvers kennara og fer eftir eðli prófsins.

Hægt er að nota nokkrar gerðir af spurningum: Texta-, krossa- eða fjölvalsspurningar, einnig eyðufyllingar og pörun. Munurinn á krossa- og fjölvalsspurningu er að einungis er hægt að svara einum lið í krossaspurningu en svara þarf tveimur eða fleiri í fjölvalsspurningum.

Spurningarnar safnast síðan í spurningabanka kennarans þannig að hægt er að nota spurningarnar aftur í fleiri próf. Einnig hægt að tengja við spurningabanka skólans þannig að fleiri geti notað spurningar.

Prófið búið til

Uppsetning á prófi fer fram í þremur liðum: 1. Almennar upplýsingar, 2. velja spurningar, 3. Leggja prófið fyrir

Að búa til próf

Almennar upplýsingar eru heiti prófsins, hvort það eigi að vera aðgengilegt í prófabanka skólans, einhver lýsing, nafn áfanga og leitarskilyrði sem kennari ákveður eftir sínu kerfi.

Neðar á síðunni er hægt að velja hvort viðhengi eigi að fylga og þegar allt er komið er farið í velja spurningar. Passa þarf að á þessu stigi er ekki búið að vista prófið, það gerist ekki fyrr en í hlutanum þar sem settar eru inn spurningarnar.

Farið yfir á næstu síðu með því að smella á velja spurningar

Þá er komið að því að velja spurningar sem er liður tvö við að setja upp prófið og er undirstrikað efst í glugganum hvar maður er hverju sinni (sjá mynd):

Að leggja próf fyrir – velja spurningar

Hér er hægt að vista prófið ef þarf að taka pásu á þessu stigi með því að smella á staðfesta. Þá vistast það sem búið er að gera og prófið fer í prófabankann. Til þess að halda áfram er þá valið breyta (með pennanum) en ekki leggja fyrir próf, því þegar leggja fyrir próf er valið þá er reiknað með að spurningar séu þegar komnar.

Að velja spurningar

Þrjár leiðir eru við að velja spurningar: 1. Að búa til nýja, 2. velja spurningu úr spurningabanka, 3. að velja spurningu úr spurningabanka skóla

Hvernig spurningar ætla ég að nota

Ef spurningar eru valdar úr eigin spurningabanka er nóg að smella á spurningu og færist hún þá upp í prófið.

Spurning búin til

Sjálfkrafa er gert ráð fyrir að hver spurning hafa sömu stig og þá er prósentutalan sú sama. Kennari stjórnar væginu með því að breyta stigafjölda hverrar spurningar og þá breytist vægi þeirra um leið

Með því að smella á sýnishorn, bláa kassann, er hægt að skoða hvernig prófið lítur út:

Hvernig lítur prófið út?

Þarna er spurningin, stigafjöldi og prósentutala, í kassanum er síðan rétt svar til að auðvelda yfirferð kennara (nemandi sér ekki svarið).

Ef kennari vill bæta inn spurningum úr prófabanka skólans þá velur hann þann lið og fær þá upp spurningabankann með leitarmöguleikum og eins og áður er nóg að smella á spurninguna til þess að hún færist í prófið:

Finna spurningu í spurningabanka

Síðan er að sjálfsögðu hægt að bæta við spurningu með því að búa til nýja spurningu.

Hér er hægt að stoppa ef ekki er búið að klára prófið og velja þá staðfesta til að vista. Þá hoppar prófið yfir í prófabankann aftur. Eins og áður þarf að fara í prófabankann til að halda áfram og velja pennann og velja spurningar til þess að fá prófið upp aftur til að geta haldið áfram.

Að leggja prófið fyrir

Ef allt er eins og það á að vera er komið að því að leggja prófið fyrir með því að velja staðfesta og leggja fyrir.

Próf lagt fyrir – stillingar

Það þarf að velja hópinn sem á að taka prófið og ef prófið er tengt einkunnareglu þarf að velja tegund einkunnar (þá birtist listi úr einkunnareglunni). Ákveða hvort þetta er fyrir allan hópinn eða einhverja tiltekna nemendur. Hvenær eiga nemendur að geta séð prófið, hvenær geta þeir opnað það og hvenær á að skila því.

Hægt er að velja um nokkra liði er tengjast fyrirlögninni, t.d. hvort röð spurninga er tilviljunarkennd og hvort allir nemendur eiga að fá sömu spurningarnar. Ef nemendur eiga að fá mismunandi spurningar þarf að velja fleiri spurningar en þær sem eiga að koma fram, t.d. 20 spurningar en þeir eiga að svara 10.

Mismunandi spurningar á sama prófi

Ef allt er komið er hægt að leggja prófið fyrir. Gott er að venja sig á að skoða alltaf yfir prófið, hvort allar stillingar eru réttar og velja að síðustu stækkunarglerið til að sjá prófið í heild sinni:

Stillingar prófs

Þegar stækkunarglerið er valið er hægt að skoða hvernig prófið lítur út en það er ekki hægt að prufa að taka prófið, einungis sjá hvernig það lítur út:

Útlit prófs