Ein ástæða gæti verið sú að það er mikið fljótlegra að fara yfir próf heldur en verkefni, jafnvel þó ekki sé notuð sjálfvirk yfirferð. Nemendum þykir einnig mörgum betra að gera verkefnin beint á Innu frekar en setja þau upp í sér skjali og senda inn. Ein ástæða enn gæti verið að þá eru nemendur ekki að senda inn allskonar skjöl sem mis auðvelt er að opna. Allt þetta flýtir fyrir yfirferð og getur munað mörgum tímum hjá kennurum sem eru með stóra hópa eða marga eins hópa.
En til þess að þetta gangi upp sem fljótlegri yfirferð er nauðsynlegt að skrifa svarið við spurningunni þegar spurningin er sett upp. Sumir kennarar segja að svörin séu ekki alltaf svona svarthvít, stundum þurfi að vega og meta hvort gefa eigi fyrir spurningu þó svarið sé ekki endilega nákvæmlega það sem spurt var um. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það þó kennari skrifi svarið því enginn sér svarið nema kennarinn sjálfur. Þetta hinsvegar flýtir ótrúlega mikið fyrir, sérstaklega þegar kennari er búinn að koma sér upp góðum spurningabanka sem hann getur notað aftur og aftur.

Hægt er að stjórna tímanum sem prófið er opið bara rétt eins og um verkefni sé að ræða. Nemendur geta opnað prófið/verkefnið og vistað og komið aftur seinna. Eina sem þarf að passa (sem höfundur rak sig á) er að ef merkt er við að nemendur megi skila oft þá geta þeir skilað aftur eftir að yfirferð kennara lýkur og búið er að gefa einkunn, þ.e.a.s ef tíminn er ekki útrunninn. Þessi kennari leyfir núna tímanum að klára áður en yfirferð hefst en er ekki með neinn æðibunugang að flýta fyrir sér.